Arctic Fish: Samkomulag um 25 milljarða króna endurfjármögnun

July 10, 2023

Hafnarnes

Mikilvæg hvatning um áframhaldandi uppbyggingu Arctic Fish á Vestfjörðum

Endurfjármögnun Arctic Fish verður tengd sjálfbærnimarkmiðum félagsins. Félagið á og rekur sína eigin landeldisstöð á seiðum, sem er ein fullkomnasta í heimi þegar kemur að endurnýtingu vatns og notkun á hreinum orkugjöfum.

 

Arctic Fish ehf. hefur undirritað samkomulag um 25 milljarða króna endurfjármögnun á félaginu með sambankaláni DNB, Danske Bank, Nordea og Rabobank. Um er að ræða lánasamning til þriggja ára með möguleika á framlengingu. Fjármagnið verður notað til uppgreiðslu núverandi lána og fjármögnunar áframhaldandi vexti félagsins.

„Mikil ánægja ríkir um fjármögnunina sem mun styðja við framtíðaráherslur félagsins. Nú hefst frágangur lánasamninga og er endurfjármögnunin háð hefðbundnum fyrirvörum um frágang slíkra lánaskjala,“ segir Neil Shiran Þórisson, fjármálastjóri Arctic Fish.

Félagið hefur verið í stefnumörkun á sviði sjálfbærnimála og vinnur að innleiðingu þeirra í samræmi við alþjóðamælikvarða. Lánið er tengt sjálfbærnimarkmiðum og árangri félagsins á því sviði. Neil Shiran segir að það muni hafa jákvæð áhrif á vaxtakjör til framtíðar og veita mikla hvatningu til áframhaldandi góðra verka sem félagið ætli sér að standa undir. Bankarnir sem standa að endurfjármögnuninni munu verða upplýstir um árangur sjálfbærnimarkmiða félagsins og sinna eftirfylgni þeirra.

 

Ört stækkandi félag á Vestfjörðum

Arctic Fish er ört vaxandi laxeldisfélag með starfsemi á Vestfjörðum. Félagið á og rekur sína eigin landeldisstöð á seiðum, sem er ein fullkomnasta í heimi þegar kemur að endurnýtingu vatns og notkun á hreinum orkugjöfum. Í lok júní störfuðu yfir 100 manns hjá Arctic Fish samstæðunni og er áætlað að það fjölgi um 20 manns til viðbótar fram að áramótum.

Hægt er að framleiða um 4 milljónir fiska á landi í stöðinni. Þá er sjóeldisstarfsemi félagsins í miklum vexti og er stefnan sett á um 15 þúsund tonna sölu á laxi í ár með vöxt upp í um 22 þúsund tonn á næstu þremur árum. Í starfsstöð fyrirtækisins í Bolungarvík er um þessar mundir verið að taka í notkun hátæknivinnsluhúsnæði sem mun sjá um vinnslu og pökkun félagsins. Félagið hefur fjárfest í sérhæfðum mannvirkjum og eldisbúnaði fyrir um 18 milljarða króna og er enn að fjárfesta í seiðaframleiðslu. Þá er félagið með um 11 milljarða bundna í laxabirgðum í sjó.

Árið 2023 stefnir í að vera stærsta ár í sögu félagsins þegar kemur að veltu og umfangi rekstrar og fjárfestinga.

Stærsti eigandi Arctic Fish ehf. er MOWI, stærsta laxeldisfyrirtæki í heimi, og næst stærsti hluthafinn er Síldarvinnslan hf. Sterkir eigendur, vaxtaráform félagsins og hágæða afurðir úr sjálfbæru eldi skapa traustan grunn fyrir endurfjármögnuninni.

 

Related Posts

Atvik í landeldisstöð

Atvik í landeldisstöð

Fimmtudaginn 23. maí síðastliðinn átti sér stað bilun í búnaði í seiðaeldisstöð okkar í Norður-Botni í Tálknafirði sem olli því að vatn...