Ársskýrsla Arctic Fish

May 12, 2022

Kvígyndisdalur

Árið 2021 var Arctic Fish hagfellt. Félagið seldi um 11.500 tonn af laxi sem er meira en nokkru sinni fyrr.  Þá framleiddi fyrirtækið 3,3 milljónir seiða sem fóru að mestu leyti í eigið sjóeldi. Fyrirtækið var skráð á norska Euronext Growth hlutabréfamarkaðinn og nýtt hlutafé var sótt til þess að styrkja innviði og framtíðarvöxt fyrirtækisins. Ráðist var í stækkun á seiðaeldisstöð félagsins í Tálknafirði, fjárfesting sem nemur um 3,8 milljörðum króna og eykur framleiðslugetu félagsins á seiðum upp í 5 milljónir seiða. Þá fjárfesti félagið í fasteignum og lóð í Bolungarvík þar sem fyrirhugað er að koma upp sláturhúsi fyrir framleiðslu félagsins. Áætlað er að fjárfestingin í sláturhúsinu nemi allt að 4 milljörðum.

Félagið fékk úthlutað nýju leyfi í Dýrafirði þar sem hámarks leyfður lífmassi fór úr 4.000 tonnum í 10.000 tonn. Við árslok 2021 var félagið með leyfi fyrir rúmlega 23 þúsund tonna eldi í sjó.  Allar staðsetningar félagsins og eldi félagsins fór í gegnum viðamikla og ítarlega úttekt og eru allar staðsetningar með alþjóðlega umhverfisvottun ASC (e. Aquaculture Stewardship Council).

Tekjur Arctic Fish á árinu 2021 námu 8,8 milljörðum króna samanborið við tekjur upp á 5,5 milljarða á árinu 2020. Afkoma fyrir greiðslu vaxta og skatta (e. Operational EBIT) á árinu nam 1.279 milljónum króna sem er 1.186 milljónum krónum meira en á árinu 2020.

Meðalsöluverð á kíló á árinu 2021 var 764 krónur samanborið við 671 krónur árið 2020 sem er hækkun sem er 14%  hækkun. Seldar afurðir jukust um 54% á milli ára, úr 7.443 tonnum í 11.479 tonn. Þá lækkaði framleiðslukostnaður milli ára um 4% úr 662 krónum niður í 636 krónur á hvert kíló.

Framlegð á árinu fyrir greiðslu vaxta og skatta (Operational EBIT pr. kg) nam 127 krónum á hvert selt kíló á árinu samanborið við 9,4 krónur á hvert selt kíló árið 2020. Bætta framlegð  má rekja til tveggja lykilþátta, hærra söluverð og lægri framleiðslukostnaðar í kjölfar aukinnar stærðarhagkvæmni.

Hagnaður fyrirtækisins á árinu eftir fjármagnsliði var 2.246 milljónir króna samanborið við 567 milljóna króna tap árið 2020.

 Í árslok 2021 voru heildareignir samstæðunnar 21,1 milljarður króna, en í árslok 2020 námu heildareignirnar 16,7 milljörðum króna. Helsta aukning milli ára var í formi fastafjármuna sem jukust um 1.495 milljónir og lífmassi jókst úr 5.920 milljónum króna í 7.536 milljónir í árslok 2021.

Nettó vaxtaberandi skuldir í lok árs námu 4,7 milljörðum króna samanborið við 6,9 milljarða króna nettó vaxtaberandi skuldir í lok árs 2020. Lækkuðu því nettó vaxtaberandi skuldir (net interest bearing debt) um 2,2 milljarða milli ára.

Eiginfjárhlutfallið í lok árs 2021 var 68,0%.

Með þessari frammistöðu ársins 2021 þá er Arctic Fish orðið eitt af stærstu laxeldifyrirtækjunum á Íslandi. Félagið er enn að vaxa og hefur á að skipa úrvals starfsfólki og hefur fjárhagslegan styrkleika til þess að ná vaxtarmarkmiðum sínum.

 

Nálgast má skýrsluna í heild sinni hér

Related Posts

Atvik í landeldisstöð

Atvik í landeldisstöð

Fimmtudaginn 23. maí síðastliðinn átti sér stað bilun í búnaði í seiðaeldisstöð okkar í Norður-Botni í Tálknafirði sem olli því að vatn...