Fiskeldisskattar á Íslandi

September 29, 2022

Það hefur vakið nokkra athygli í fjölmiðlum, fyrirætlanir norskra stjórnvalda um auðlindagjald á norsk sjóeldisfyrirtæki. Tillögurnar ganga út á að greitt verði auðlindagjald sem verði 40% af hagnaði í sjókvíaeldi auk þeirra skatta sem eru þar nú þegar. Markaðir í Noregi tóku ekki vel í þessa auknu skatta og skráð sjóeldisfyrirtæki í norsku kauphöllinni lækkuðu mikið daginn sem þetta var tilkynnt. Lækkaði verðmæti þessara fyrirtækja samanlagt um 600 milljarða króna á einum degi. Margir hrukku við, eðlilega og þetta náði meira að segja athygli okkar hér á Íslandi. Tillögurnar sem lagðar er til í Noregi teljast róttækar en hvernig er skattumhverfi sjóeldisfyrirtækja hér á Íslandi? Höfum í huga að eldi í Noregi hefur verið stundað í áratugi en hér er það í uppbyggingarfasa með tilheyrandi fjárfestingum. Sum eldisfyrirtækin eru sem dæmi að fjárfesta til framtíðar fyrir sem nemur um 50-100% af ársveltu, þannig að það er ekki mikið eftir frá rekstri til að standa undir skattgreiðslum, jafnvel þó reksturinn gangi vel. Það er hinsvegar eðlilegt fyrir eldisfyrirtækin að greiða fyrir afnot af burðarþoli fjarða en skatthlutfallið þarf að vera raunhæft.
 
7% af veltu í eldisskatta og gjöld en 80% af hagnaði?
Hér á Íslandi er gjaldtaka í fiskeldi í megindráttum fjórþætt. Í fyrsta lagi er búið að setja í lög að eldisfyrirtæki eigi að greiða 3,5% af viðmiðunarverði  á slægðum og pökkuðum laxi sem kominn er til Evrópu. Tillögur liggja fyrir að hækka þetta hlutfall í 5% á næsta ári. Taka verður fram að þrepaskiptir afslættir eru fyrstu árin sem þetta er innleitt og á næsta ári er greitt 4/7 af gjaldinu.
Fiskeldisgjaldið er skilgreint sem gjald fyrir afnot af sameiginlegri auðlind. Þá mætti teljast eðlilegt að miða skatthlutfall við verð á laxi upp úr sjó. Væri það gert þyrfti að draga frá umræddu viðmiðunarverði kostnað við brunnbáta, sláturkostnað, umbúðir, sölukostnað og flutning. Sá kostnaður er um 20-25% af söluverði laxins. Fyrirtækin munu því greiða mun hærra hlutfall af tekjum úr sjóeldinu en gefið er í skyn í lögunum. Eins og fyrirkomulagið er núna munu félögin greiða 5% veltuskatt af kaupum sínum á umbúðum, sláturkostnaði, sölukostnaði o.s.frv. Framsetningin á hlutfalli auðlindagjalds er því mjög villandi enda er hlutfallið mun hærra en gefið er í skyn.
 
Sé horft fram hjá öllum þessum þáttum og ekki horft að verð á laxi upp úr sjó heldur horft á skilaverð til eldisfyrirtækisins við verksmiðjudyr (sem er lægra en viðmiðunarverði) má leiða að því líkur að umræddur 5% skattur verði nær 6% af veltu fyrirtækjanna af seldum afurðum. Skýringin er sú að fyrirtækin eru ekki að selja afurðir sínar við verksmiðjudyr á umræddum viðmiðunarverðum og eitthvað af afurðunum fer ekki i fyrsta flokk og seljast því á lægra verði. Kostnaður fellur til við að flytja fiskinn á markaði, í flestum tilvikum um langa leið yfirleitt til Evrópu eða Bandaríkjanna. Sá kostnaður er iðulega greiddur af kaupanda og svo eru söluþóknanir sem oft renna ekki beint til fyrirtækjanna heldur milliliðs. Umræddur 5% veltuskattur er því meira en 5% af veltu, a.m.k. yfir 6%.
 
Til viðbótar má áætla að gjald í umhverfissjóð og hafnargjöld nemi um 1% af veltu fyrirtækjanna fyrir utan tekjuskatt af hagnaði fyrirtækjanna, ef vel gengur, sem nemur 20% eins og hjá öðrum fyrirtækjum. Samtals eru þetta því yfir 7% af veltu sem greitt er í sértæka skatta og gjöld.
 
57% af hagnaði í skatt?
Af þessu má sjá að þegar að umræddir skattar verða að fullu innleiddir mun fyrirtæki sem skilar 10% hagnaði fyrir skatta, greiða um 80% af hagnaði í skatta til ríkisins og heldur eftir 20% sjálft. Sé hagnaður fyrir skatta 20% skipta ríkið og fyrirtækið hagnaðinum að jöfnu.
*ath að þetta eru ekki hárnákvæmir útreikningar. Þeir ættu hinsvegar að vera varfærnir og gefa nokkuð góða mynd að því hvernig þessu er háttað.

Related Posts

Birting eftirlitsskýrslu MAST

Birting eftirlitsskýrslu MAST

Matvælastofnun hefur birt eftirlitsskýrslu vegna stroks sem varð hjá okkur í ágúst s.l. Þar er gerð grein fyrir tveimur alvarlegum...