Uppgjör fyrsta ársfjórðungs 2022

May 25, 2022

Fyrsti ársfjórðungur 2022 var sérstakur hjá Arctic Fish. Félagið lenti í umtalsverðu tjóni í fjórðungnum þar sem ófyrirséð afföll af laxi námu um 2.512 tonnum á tveimur staðsetningum í Dýrafirði. Markaðirnir voru sterkir fyrir afurðirnar þannig að verðin í fjórðungnum voru há, en afföllin höfðu áhrif á verðmyndun fyrirtækisins. Framleiðslukostnaðurinn að undanskildu atvikinu var nokkuð stöðugur eða um 680 kr á kg. Skilaverðin til Arctic Fish voru um 978 kr á kg og framlegðin úr eldinu nam því 298 kr á kg.

Í fjórðungnum seldi Arctic Fish 4.221 tonn af afurðum, sem er 11% meira magn en á sama tímabili árinu áður. Veltan rúmlegan tvöfaldaðist en tekjurnar í fjórðungnum námu 4,1 milljarði króna. Afföllin leiddu til niðurfærslu á lífmassa og einskiptiskostnaði sem nam um 1,9 milljarði króna. Rekstrarniðurstaðan var því neikvæð og tapið um 180 milljónir króna.

Félagið hélt áfram fjárfestingum sínum í fjórðungnum bæði í stækkun seiðaeldistöðvarinnar í Tálknafirði og svo í sláturhúsinu sem félagið keypti í Bolungarvík. Fjárfest var í fjórðungnum fyrir 1,4 milljarð króna og námu heildareignir félagsins 21,2 milljörðum króna í lok fjórðungsins. Af eignum félagsins eru fjárfestingar í seiðaeldisstöðinni, eldisbúnaði, kvíabúnaði, skipum og prömmum 10,8 milljarðar.  Þá er lífmassinn metinn á 4,9 milljarða króna í lok tímabilsins. Eiginfjárstaða félagsins var áfram sterk í lok fjórðungsins og einnig nægt óádregið rými á lánalínur félagsins til að styðja við áframhaldandi vöxt félagsins. Þá fékk félagið nýtt leyfi fyrir 4.000 tonna eldi í Arnarfirði.

Framtíðarhorfur eru góðar og útlit á mörkuðum er gott. Félagið er enn í vaxtarskeiði og þrátt fyrir áföllin í fyrsta ársfjórðungi þá áætlar félagið að selja um 10.600 tonn af laxi á ári. Töluverðar framkvæmdir verða á komandi mánuðum við stækkun seiðaeldisstöðvarinnar, viðbyggingar við laxasláturhúsið í Bolungarvík, ásamt kaupum á tækjum og búnaði fyrir sláturhúsið. Fjárfestingarnar munu gera fyrirtækinu kleift að auka samkeppnishæfni sína til skemmri og lengri tíma.

Nánari upplýsingar veitir, Neil Shiran Þórisson, fjármálastjóri félagsins nst@afish.is, +354 8315300

Related Posts

Atvik í landeldisstöð

Atvik í landeldisstöð

Fimmtudaginn 23. maí síðastliðinn átti sér stað bilun í búnaði í seiðaeldisstöð okkar í Norður-Botni í Tálknafirði sem olli því að vatn...